InfoGraphic

Afhending íslensku vefverðlauna SVEF á UTmessunni 8. febrúar kl. 17 í Eldborg

Íslensku vefverðlaunin eru uppskeruhátíð vefiðnaðarins, haldin með það að markmiði að efla hann, verðlauna bestu vefina og hvetja þá sem starfa á þessum vettvangi til dáða. Foseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson veitir verðlaunin.
 
Dómnefnd fer vandlega yfir tilnefnda vefi og velur þá sem skara fram úr í hverjum flokki. Dómnefndina skipa 7-8 einstaklingar sem starfa í vefgeiranum.

Stjórn SVEF skipar í dómnefndina en unnið er úr tilnefningum til hennar sem eru öllum frjálsar. Áhersla er lögð á að setja saman breiðan hóp sem samanstendur af fólki með ólíkan sérfræðiþekkingu og starfar hjá ólíkum fyrirtækjum.
 
Veitt eru verðlaun í 11 flokkum. Þar af eru 7 flokkar sem hægt er að tilnefna til en aðrir eru í höndum dómnefndar og félagsmanna.
 
Flokkar sem hægt er að tilnefna í:
Besti sölu- og kynningarvefurinn (yfir 50 starfsmenn) 
Besti sölu- og kynningarsvefurinn (undir 50 starfsmenn) 
Besti þjónustu- og upplýsingavefurinn 
Besta markaðsherferðin á netinu 
Besti smá- eða handtækjavefurinn 
Besti afþreyingar- og/eða fréttavefurinn 
Besti blog/efnistök/myndefni
 
Dómnefnd veitir þar að auki þrenn auka verðlaun:
Frumlegasti vefurinn
Besta útlit og viðmót
Besti íslenski vefurinn
 
Félagar í SVEF kjósa svo um athyglisverðasta vefinn á árinu.
 
Nánari upplýsingar er að finna á www.svef.is
 

Hvað er UTmessan?

UTmessan er einn stærsti viðburður ársins í tölvugeiranum og hefur verið haldin árlega frá árinu 2011. Tilgangurinn er ekki síst til að sýna almenningi hversu stór og umfangsmikil þessi grein er orðin hér á landi. Á UTmessuna mæta öll helstu tölvu- og tæknifyrirtæki landsins og taka þátt með einum eða öðrum hætti og hvetja þannig fólk til að kynna sér um hvað tölvuiðnaðurinn snýst.  

UTmessan skiptist í tvo daga:

Föstudagur: Ráðstefna og sýning um það helsta sem er að gerast í tölvugeiranum. 

Laugardagur: Þar sýna öll helstu tölvu- og tæknifyrirtæki landsins það sem þau hafa fram að færa á sérstakri tölvusýningu.

 

Fyrir hverja?

Föstudagur: Ráðstefnudagur og sýning ætluð fagfólki um upplýsingatækni svo sem þá sem starfa í eða við tölvumál eða hafa brennandi áhuga á þeim. 

Skrá þarf þátttöku á ráðstefnuna sérstaklega í gegnum þar til gert skráningarform og er þátttökugjaldi stillt í hóf.

Laugardagur: Sýningin er ætluð öllum sem vilja sjá hvað tölvugeirinn hefur upp á að bjóða. Einnig verða stuttar kynningar á ýmsum hliðum upplýsingatækninnar í gangi í ráðstefnusölum og kostar ekkert inn á þá. 

Aðgangur að sýningardegi UTmessunnar er ókeypis og eru ungir sem aldnir hvattir til að mæta og sjá framtíðina með berum augum.  

Af hverju UTmessan?

Mikill skortur er á tölvumenntuðu fólki hér á landi sem annars staðar í heiminum. 

Átak er í gangi í fjölmörgum ríkjum Evrópu þar sem fólk er hvatt til að mennta sig í tölvunarfræðum og er UTmessan stærsti liðurinn í því átaki á Íslandi. Frá því að UTmessan var haldin í fyrsta sinn hefur ásókn í tölvunarfræði og tengdum greinum aukist verulega. Ásamt því hefur vitundarvakning átt sér stað meðal almennings á tölvugeiranum og mikilvægi hans í daglegu lífi.

Á UTmessunni sést fjölbreytileiki upplýsingatækninnar og sést þar að allir eiga möguleika á að starfa í tölvugeiranum enda starfssviðið fjölbreytt og hentar öllum, óháð kyni.