InfoGraphic

Rakel Sölvadóttir, stofnandi Skema, fékk í dag UT verðlaun Ský 2014

en þetta er í fimmta sinn sem verðlaunin eru afhent.

Í rökstuðningi valnefndar segir að Rakel sé hugsjónamanneskja og frumkvöðull sem sýnt hafi hversu mikilvægt það sé að vera jákvæður og trúa á sjálfan sig og hugmyndir sínar.

„Ný nálgun og hugmyndafræði Rakelar hefur valdið straumhvörfum í fræðslu og áhuga allra aldurshópa á nýtingu upplýsingatækni. Aðferðafræðin sem er studd af rannsóknum á sviði sálfræði, kennslufræði og tölvunarfræði, hefur það markmið að kenna ungu fólki frá 6 ára aldri að forrita. Undirstöðuatriði aðferðafræðinnar byggja á jákvæðni, myndrænni framsetningu og notkun á þrívíðum forritunarumhverfum til að stíga fyrstu skrefin inn í heim tækninnar. Rakel hefur verið sérstaklega góð fyrirmynd fyrir ungar konur sem eru að stíga sín fyrstu skref í tækniheiminum eða stefna að því að afla sér menntunar á sviði tækni og/eða vísinda.“

Rakel stofnaði sprotafyrirtækið Skema árið 2011 og hefur það vaxið á ógnarhraða frá stofnun. Rakel er Bs í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands og starfaði meðal annars hjá Mentis, Teris og Tryggingastofnun ríkisins áður en hún stofnaði Skema. Um mitt síðasta ár stofnaði Rakel fyrirtækið reKode Education í Bandaríkjunum, sem byggir á sömu hugmyndafræði og Skema og hefst kennsla þar í apríl næstkomandi.

Þá segir ennfremur í rökstuðningi valnefndar:

„Rakel hefur lagt ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð í störfum sínum og með því að auka þekkingu á tæknitengdum greinum er verið að svara kalli atvinnulífsins og samfélagsins í heild. Forbes valdi Skema sem eitt af tíu sprotafyrirækjum í heiminum sem talin eru líkleg til að ná miklum árangri á næstunni og var Rakel valin í hóp átta frambærilegustu kvennanna á tækniráðstefnunni SXSW í Bandaríkjunum 2013 af Women 2.0. “

Markmið Skema er að uppfæra menntun í takt við tækniþróun og býður fyrirtækið upp á námskeið fyrir börn frá 7 ára aldri í forritun. Jafnframt leggur Skema mikla áherslu á endurmenntun kennara og er því með námskeið ætluð kennurum í notkun upplýsingatækni í kennslu ásamt ráðgjöf við innleiðingu á notkun tækni og kennslu í forritun í almennt skólastarf.

Það var Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem afhenti Rakel verðlaunin á UTmessunni sem nú stendur yfir í Hörpu.

UTmessan er opin almenningi á morgun, laugardag, frá kl. 10:00 – 17:00 en þar gefst fólki kostur á að sjá og upplifa strauma og stefnur og allt það nýjasta í upplýsingatæknigeiranum. Aðgangur er ókeypis og er dagskráin miðuð að öllum aldurshópum.

 

Hvað er UTmessan?

UTmessan er einn stærsti viðburður ársins í tölvugeiranum og hefur verið haldin árlega frá árinu 2011. Tilgangurinn er ekki síst til að sýna almenningi hversu stór og umfangsmikil þessi grein er orðin hér á landi. Á UTmessuna mæta öll helstu tölvu- og tæknifyrirtæki landsins og taka þátt með einum eða öðrum hætti og hvetja þannig fólk til að kynna sér um hvað tölvuiðnaðurinn snýst.  

UTmessan skiptist í tvo daga:

Föstudagur: Ráðstefna og sýning um það helsta sem er að gerast í tölvugeiranum. 

Laugardagur: Þar sýna öll helstu tölvu- og tæknifyrirtæki landsins það sem þau hafa fram að færa á sérstakri tölvusýningu.

 

Fyrir hverja?

Föstudagur: Ráðstefnudagur og sýning ætluð fagfólki um upplýsingatækni svo sem þá sem starfa í eða við tölvumál eða hafa brennandi áhuga á þeim. 

Skrá þarf þátttöku á ráðstefnuna sérstaklega í gegnum þar til gert skráningarform og er þátttökugjaldi stillt í hóf.

Laugardagur: Sýningin er ætluð öllum sem vilja sjá hvað tölvugeirinn hefur upp á að bjóða. Einnig verða stuttar kynningar á ýmsum hliðum upplýsingatækninnar í gangi í ráðstefnusölum og kostar ekkert inn á þá. 

Aðgangur að sýningardegi UTmessunnar er ókeypis og eru ungir sem aldnir hvattir til að mæta og sjá framtíðina með berum augum.  

Af hverju UTmessan?

Mikill skortur er á tölvumenntuðu fólki hér á landi sem annars staðar í heiminum. 

Átak er í gangi í fjölmörgum ríkjum Evrópu þar sem fólk er hvatt til að mennta sig í tölvunarfræðum og er UTmessan stærsti liðurinn í því átaki á Íslandi. Frá því að UTmessan var haldin í fyrsta sinn hefur ásókn í tölvunarfræði og tengdum greinum aukist verulega. Ásamt því hefur vitundarvakning átt sér stað meðal almennings á tölvugeiranum og mikilvægi hans í daglegu lífi.

Á UTmessunni sést fjölbreytileiki upplýsingatækninnar og sést þar að allir eiga möguleika á að starfa í tölvugeiranum enda starfssviðið fjölbreytt og hentar öllum, óháð kyni.