Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

 

 

Afhending íslensku vefverðlauna SVEF á UTmessunni 8. febrúar kl. 17 í Eldborg

Íslensku vefverðlaunin eru uppskeruhátíð vefiðnaðarins, haldin með það að markmiði að efla hann, verðlauna bestu vefina og hvetja þá sem starfa á þessum vettvangi til dáða. Foseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson veitir verðlaunin.
 
Dómnefnd fer vandlega yfir tilnefnda vefi og velur þá sem skara fram úr í hverjum flokki. Dómnefndina skipa 7-8 einstaklingar sem starfa í vefgeiranum.

Stjórn SVEF skipar í dómnefndina en unnið er úr tilnefningum til hennar sem eru öllum frjálsar. Áhersla er lögð á að setja saman breiðan hóp sem samanstendur af fólki með ólíkan sérfræðiþekkingu og starfar hjá ólíkum fyrirtækjum.
 
Veitt eru verðlaun í 11 flokkum. Þar af eru 7 flokkar sem hægt er að tilnefna til en aðrir eru í höndum dómnefndar og félagsmanna.
 
Flokkar sem hægt er að tilnefna í:
Besti sölu- og kynningarvefurinn (yfir 50 starfsmenn) 
Besti sölu- og kynningarsvefurinn (undir 50 starfsmenn) 
Besti þjónustu- og upplýsingavefurinn 
Besta markaðsherferðin á netinu 
Besti smá- eða handtækjavefurinn 
Besti afþreyingar- og/eða fréttavefurinn 
Besti blog/efnistök/myndefni
 
Dómnefnd veitir þar að auki þrenn auka verðlaun:
Frumlegasti vefurinn
Besta útlit og viðmót
Besti íslenski vefurinn
 
Félagar í SVEF kjósa svo um athyglisverðasta vefinn á árinu.
 
Nánari upplýsingar er að finna á www.svef.is
 

Hvað er UTmessan?

UTmessan er einn stærsti viðburður ársins í tölvugeiranum og hefur verið haldin árlega frá árinu 2011. Tilgangurinn er ekki síst til að sýna almenningi hversu stór og umfangsmikil þessi grein er orðin hér á landi. Á UTmessuna mæta öll helstu tölvu- og tæknifyrirtæki landsins og taka þátt með einum eða öðrum hætti og hvetja þannig fólk til að kynna sér um hvað tölvuiðnaðurinn snýst.  

UTmessan skiptist í tvo daga:

Föstudagur: Ráðstefna og sýning um það helsta sem er að gerast í tölvugeiranum. 

Laugardagur: Þar sýna öll helstu tölvu- og tæknifyrirtæki landsins það sem þau hafa fram að færa á sérstakri tölvusýningu.

 

Fyrir hverja?

Föstudagur: Ráðstefnudagur og sýning ætluð fagfólki um upplýsingatækni svo sem þá sem starfa í eða við tölvumál eða hafa brennandi áhuga á þeim. 

Skrá þarf þátttöku á ráðstefnuna sérstaklega í gegnum þar til gert skráningarform og er þátttökugjaldi stillt í hóf.

Laugardagur: Sýningin er ætluð öllum sem vilja sjá hvað tölvugeirinn hefur upp á að bjóða. Ný tækni, þrautir, kynningar og leikir verða í gangi á sýningarsvæðinu sem hentar öllum aldri. Ýmis verkefni verða kynnt í ráðstefnusölum og hefur hönnunarkeppni HÍ verið hluti af UTmessunni síðustu ár. Skemmtun við allra hæfi fyrir alla.

Aðgangur að sýningardegi UTmessunnar er ókeypis og eru ungir sem aldnir hvattir til að mæta og sjá framtíðina með berum augum.  

Af hverju UTmessan?

UTmessan hefur fest sig í sessi sem einn helsti vettvangur fyrirlestra, umræðna, skoðanaskipta og nýjunga í tölvugeiranum á Íslandi og endurspeglar mikilvægi tölvutækninnar í daglegu lífi okkar allra. Þar er jafnframt að finna umfangsmikið og fjölbreytt sýningarsvæði þar sem öll helstu tölvu- og tæknifyrirtæki landsins sýna framtíðina í tækjum og vörum sem ætíð vekja mikla athygli og er fjölsótt. Á síðustu árum hefur UTmessan í auknum mæli orðið sá staður þar sem íslenskir og erlendir sérfræðingar kynna það helsta í þessum geira og endurspeglar hún þann fjölbreytileika, framþróun og möguleika sem upplýsingatæknin býr yfir.

Nemendum í þessum greinum hefur fjölgað umtalsvert hér á landi á síðustu árum enda hefur UTmessan, sem einn fjölsóttasti atburður sinnar tegundar hér á landi, sýnt fram á hversu fjölbreytt starfssviðið er, atvinnumöguleikar góðir og að það hentar öllum, óháð kyni.