Þessi síða notar kökur (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn.

 

 

Praktískar upplýsingar fyrir sýnendur

Sala á sýningarsvæði UTmessunnar fer fram í október.

Sýningarbásar

Úthlutaður sýningarbás er einungis gólfpláss með aðgangi að rafmagni og þráðlausu neti (Wi-Fi). Sýningaraðilar þurfa sjálfir að sjá um það sem á að vera í sýningarbásnum svo sem stóla, borð, bakveggi, fjöltengi, merkingar og annað.

Hægt er að leigja hjá Hörpu diska, skálar, tuskur, dúka og þess háttar.

Básar mega ekki vera hærri en 3 metrar og að hámarki 2 metrar á nokkrum stöðum þar sem eldvarnartjöld eru í Hörpu (þeir sem eru þar fá sérstakan póst um það). 

Stærð gólfsvæðis sem sýnandi hefur:

  • Platínum = 8*2 metrar
  • Gull = 5*2 metrar
  • Silfur = 3*2 metrar
  • Brons = 3*2 metrar
  • Nýsköpunarstiginn = 2*2 metrar

Uppröðun á sýningarsvæðinu verður sýnd er nær dregur.

Uppsetning bása á sýningarsvæðinu er á fimmtudegi frá kl. 8 - 17. Vinsamlegast virðið þá tímasetningu.

Virðið nágranna ykkar á sýningarsvæðinu og setjið ekki dót yfir á þeirra svæði.

Skiljið ekki eftir lausa/smáa hluti óvaktaða milli daga.

UTmessan er tölvu- og tæknisýning og eru sýningaraðilar hvattir til að vera með leiki og getraunir tengda tækni og gefa skemmtilegt tæknidót frekar en veitingar. Leikir og litlar tæknigjafir skila miklu meira en nammi og matur. Það er gaman að vinna í bás þar sem fólk vill stoppa við og heyra um tækni frekar en að gefa bara nammi.

Sýnendum er heimilt að koma með veitingar s.s. nammi eða slíkt til að bjóða uppá í sínum básum en reyna að hafa pakkningar í lágmarki til að minnka rusl og einnig til að halda sýningarsvæðinu snyrtilegu. Hlutir sem geta orsakað sóðaskap eins og poppvél eru ekki leyfilegir. Mælt er með að gefa frekar tæknidót en nammi.

Ekki er heimilt að sýningaraðilar komi sjálfir með áfenga drykki en hægt að kaupa áfengi beint af Hörpu. 

Reikningar fyrir sýningaraðild eru sendir út í byrjun janúar og þarf að greiða þá strax til að halda sýningarplássinu.

Ekki er leyfilegt að gefa eftir plássið til 3ja aðila.

Sýningarbásar verða að vera opnir og mannaðir bæði föstudag og laugardag. Tilgangur UTmessunnar er meðal annars að sýna fólki hve stór og flottur tæknigeirinn er og vekja áhuga ungs fólks á að vinna til dæmis hjá ykkar fyrirtæki eða á ykkar sviði í framtíðinni!

Bása skal taka niður kl. 17 á laugardag. Taka veður allt rusl með í burtu eða henda í ruslagáma í Hörpu og skilja vel við plássið. Ekki má byrja að taka niður bása fyrr þar sem fólk er að streyma inn fram að lokun.

Á ráðstefnudegi opnar sýningarsvæðið kl. 09:30 fyrir ráðstefnugesti.

Á sýningardegi opnar sýningarsvæðið kl. 10 fyrir almenning.

Ráðstefnu- og sýningarpassar

Með sýningaraðildinni fylgir eftirfarandi fjöldi aðgöngupassa:

  • Platínum - 6 ráðstefnupassar og 4 sýningarpassar
  • Gull - 4 ráðstefnupassar og 3 sýningarpassar
  • Silfur - 1 ráðstefnupassi og 2 sýningarpassar
  • Brons - 1 ráðstefnupassi og 2 sýningarpassar
  • Sproti - 2 sýningarpassar

Ráðstefnupassi veitir aðgang að ráðstefnusölum, sýningarsvæði, mat, kaffi og í kokteilinn. Ráðstefnupassinn er skráður á nafn og gildir eingöngu fyrir þann aðila.
Sýningaraðilar verða að skrá alla sína ráðstefnugesti í gegnum skráningarformið (líka fyrir þeim pössum sem eru innifaldir í sýningaraðildinni)Skráið sem allra fyrst áður en það verður uppselt!
Ígildi þeirra miða sem innifaldir eru með sýningaraðild er dregin frá heildarupphæðinni áður en reikningur fyrir ráðstefnugjöldum er sendur út. 

ATH. Sýningaraðilar fá engin sérstök afsláttarkjör af ráðstefnugjaldinu en skráðir félagar í Ský fá 10 þús. kr. í afslátt af ráðstefnupassanum.

Sýningarpassi veitir aðgang að sýningarsvæði, mat, kaffi, og í kokteilinn (gildir EKKI í ráðstefnusalina).
Þessi passi er skráður á fyrirtæki/kaupanda. Hann gildir fyrir handhafa og getur því gengið á milli vakta í sýningarbásnum yfir daginn.
Sýningaraðilar geta keypt fleiri sýningarpassa ef þeir vilja hafa fleiri á svæðinu eða í kokteilnum. Ef sýningaraðila vantar fleiri sýningarpassa en þá sem fylgja aðild er hægt að kaupa þá þegar nær dregur.

Sýningarpassarnir eru afhentir á fimmtudeginum frá kl. 9 - 17 á upplýsingaborði UTmessunnar í Hörpu þ.e. á sama tíma og básarnir eru settir upp. Það er á ábyrgð þess sem sækir þá að koma þeim til þeirra sem eru að vinna í básunum. Sýningaraðilar bera einnig ábyrgð á því að koma sýningarpössum á milli vakta.

Starfsmenn í sýningarbásum

Starfsmenn í sýningarbásum verða að hafa annað hvort ráðstefnu- eða sýningarpassa til að komast inn á sýningarsvæðið.  

Á laugardeginum fá starfsmenn í básum aðgang að rými þar sem boðið er upp á kaffi og stólar til að hvíla sig aðeins frá amstrinu. Að öðru leyti verða allir að sjá um að sitt fólk fái mat.

Upplýsingar um ráðstefnugesti

Ráðstefnugestir á UTmessunni fá afhent nafnspjald með QR kóða. QR kóðinn er „Business Card“ á staðlinum vCard 3.0 og inniheldur upplýsingar um nafn, fyrirtæki og netfang.

Sýnendur geta sótt upplýsingar um gesti á rafrænan hátt með því að skanna QR kóðann á nafnspjaldinu (með leyfi gestsins) t.d. með síma og þá fara upplýsingarnar inn í tengiliðalistann í símanum eða sótt „Badge Scanner“ app til að safna tengiliðaupplýsingum.

Hér er dæmi um QR kóða sem notaður er á nafnspjöldin:

QR code example